Síðastliðna fjóra mánuði hefur Icelandic Lamb nýtt vel leyfi markaðsstofunnar til almennra kynninga og ímyndaauglýsinga á innanlandsmarkaði. Sérstök áhersla var lögð á jólahátíðirnar en undir venjulegum kringustæðum hefur sala á lambakjöti í desember verið góð þökk sé jólahlaðborðum og veisluhöldum. Tölur um sölu og birgðir búvara sýna greinilega mikilvægi slíkra kynningaherferða en samdráttur í sölu lambakjöts var töluvert minni í desember en aðra mánuði ársins. Niðurstöður kannana IL á neyslu ferðamanna á íslensku lambakjöti gefa til kynna að undanfarin ár hafi hlutdeild ferðamanna af sölu innanlands verið rúmlega 15%. Þegar samdráttur í sölu á lambakjöti er til umræðu er mikilvægt að tillit sé tekið til áhrifa ferðamanna á innanlandsmarkaði.
Ótímabært er að álykta að neysla Íslendinga fari snarminnkandi þegar rekja megi þorra samdráttar í sölu milli ára til fjarveru ferðamanna. en sala síðasta árs var 16% lægri en árið 2019. Ekki virðast Íslendingar vera að draga eins mikið úr lambakjötsneyslu og haldið hefur verið fram. Síðastliðnar vikur hefur markaðsstofan lagt áherslu á ítarlega markaðsgreiningu með rýningu eldri gagna auk undirbúnings fyrir frekari rannsóknir á viðhorfi og neyslu Íslendinga á lambakjöti og öðrum landbúnaðarafurðum í samstarfi við kúa- og svínabændur. Á sama tíma horfa starfsmenn bjartsýnir til sumar- og haustmánuða en mikilvægt er að þegar slakað verður á ferðatilskipunum hefjist á nýjan leik öflug markaðassetning á íslensku lambakjöti til erlendra ferðamanna. Í mars opnar ný uppskrifta- og fræðslusíða fyrir íslenskt lambakjöt.